indó merki

Skilmálar á mannamáli

Skilmálar sem fólk skilur

Þó við reynum að taka okkur sjálf ekki of alvarlega, þá tökum við það mjög alvarlega að passa peningana þína. Þess vegna gilda alls konar reglur um hvað við megum, og megum ekki gera. Það gilda líka reglur hvað þú átt að passa upp á og hvaða rétt þú hefur ef okkur verður eitthvað á í messunni (sem við ætlum auðvitað að koma í veg fyrir eins og við mögulega getum).

Hérna ætlum við að segja þér það helsta sem er í skilmálum okkar á mannamáli, og svo sendum við þér þá á bæði manna- og bankamáli í tölvupósti. Þessir skilmálar gefa ágætis yfirsýn en báðir skilmálar til samans er það sem gildir fyrir okkar viðskiptasamband.

Að vera með reikning hjá indó

Þegar þú vilt stofna reikning, þá þurfum við að spyrja þig ýmissa spurninga sem kunna að hljóma undarlega. Við gerum það hins vegar til að passa upp á að enginn sé að nota þjónustuna okkar í ólöglegum tilgangi, til dæmis fyrir peningaþvætti eða til að fjármagna glæpi, en svo viljum við bara líka kynnast þér. Þess vegna spyrjum við alla sem vilja koma til okkar nokkurra spurninga, þetta er ekkert persónulegt.

Þegar búið er að stofna reikning ertu komin/n í indó! Þá færðu kort og getur byrjað að nota það í símanum þínum alveg leið, alveg eins og nýja bankareikninginn þinn.

Að nota indókortið þitt

Þú þarft auðvitað að passa að enginn annar en þú notir kortið þitt, viti PIN númerið eða geti auðkennt sig sem þig. Þú hjálpar okkur þannig að passa peningana þína og það ert bara þú sem átt að komast í þá.

Við rukkum þig ekki fyrir að nota kortið, en því miður er það þannig að stundum þegar þú notar kortið t.d. í hraðbönkum eða í útlöndum þá gætu þeir sem sjá um hraðbankana eða erlendu greiðslurnar viljað rukka þig um einhver gjöld. Okkur finnst það ömurlegt, en getum ekkert gert í því (alla vega ennþá!).

Ef þú heldur að einhver hafi komist í kortaupplýsingarnar þínar skaltu byrja á að frysta kortið þitt í appinu, láta okkur svo vita til dæmis gegnum appið og við leysum málið saman. Þetta er mikilvægt svo þú lendir ekki í að borga fyrir eitthvað sem óprúttnir aðilar keyptu með kortinu þínu.

Þú þarft auðvitað að passa að þegar þú notar kortið og reikninginn að það sé næg innistæða á reikningnum og að þú til dæmis gerir þínar millifærslur örugglega á réttan aðila.

Ef við gerum mistök

Ef við gerum mistök, þá munum gera allt til að bæta fyrir þau og passa að þau endurtaki sig ekki. Ef þér finnst við ekki hafa brugðist rétt við einhverju sem þér fannst fara úrskeiðis, þá getur þú alltaf beðið nefnd hjá Fjármálaeftirlitinu, svokallaða Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki um að ganga í málið og kanna hvort við höfum verið í ruglinu. Svo finnst okkur í alvöru frábært ef þér finnst að við gætum gert eitthvað betur, að þú myndir segja okkur frá því, við viljum alltaf bæta okkur.

Þú getur náttúrulega hætt í viðskiptum við okkur hvenær sem er, en við vonum innilega að þú verðir með okkur lengi, það væri hreint indóslegt.

Við pössum upplýsingarnar þínar vel

Við erum sparisjóður og þurfum að safna saman alls konar upplýsingum um þig, til að geta veitt þér frábæra þjónustu. Þú getur náttúrulega líka haft samband við okkur og beðið okkur um að safna ekki saman sumum upplýsingum um þig, en sumar upplýsingar verðum við að hafa, og allt eru það upplýsingar sem við þurfum til að passa að kerfin okkar virki rétt, að peningunum þínum líði sem allra best og að þegar þú notar þá að þeir fari á rétta staði og svona. Við lofum því að passa upp á þessar upplýsingar rosalega vel og munum alls ekki láta einhverja aðra fá þessar upplýsingar í öðrum tilgangi en að passa að allt virki rétt, nema þú leyfir það sérstaklega eða þegar lögin hreinlega skipa okkur að gera það.

Hvað ef eitthvað breytist?

Stundum þurfum við að breyta hlutum, eins og t.d. vöxtum og svona. Ef breytingin er til hagsbóta fyrir þig, þá breytum við strax, en ef hún er ekki jafn skemmtileg fyrir þig, þá látum við þig yfirleitt vita með 2ja mánaða fyrirvara.